139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum.

[10:52]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ætti nú að taka hina pólitísku framsóknartappa úr eyrunum og hlusta einu sinni á það sem hér er sagt. Ég fór yfir það mjög skýrt að það er verið að gefa í í framkvæmdum þarna í sumar. Landsvirkjun er búin að samþykkja að fara í frekari rannsóknir en þegar hafa verið ákveðnar á svæðinu í sumar. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ætti líka að tala við heimamenn vegna þess að viljayfirlýsingin (Gripið fram í.) sem við erum að fara að skrifa undir er að ósk heimamanna. Það eru fjölmörg verkefni sem þeir vilja ráðast í samhliða þessari atvinnuuppbyggingu sem þeir vita að er fram undan. Þeir vita það augljóslega betur en hv. þingmaður.

Hv. þingmaður gerir sínu fólki fyrir norðan engan greiða með því að tala niður þá vinnu sem verið er að vinna þarna. (Gripið fram í.) Við erum að vinna þessa vinnu í sameiningu og erum í nánu samstarfi. Hv. þingmaður ætti ekki að segja þeim ráðherra sem hér stendur að skammast sín fyrir að tala svona, heldur ætti hann að koma með okkur í þessa uppbyggingu og (HöskÞ: Ég …) fagna því (Forseti hringir.) sem fram undan er í staðinn fyrir að tala það niður. (Gripið fram í.) Raunveruleikinn er sá að það (Forseti hringir.) eru mjög stórar framkvæmdir fram undan á svæðinu. Landsvirkjun áformar tæplega (Forseti hringir.) 50 milljarða fjárfestingar í fyrsta áfanga strax fyrir árið 2014. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður ætti frekar að fagna þeim áfanga sem fram undan er en að tala þetta svona niður (Forseti hringir.) og þá vinnu sem heimamenn hafa unnið í því sambandi (Forseti hringir.) af því að þeir eiga þetta skuldlaust. [Háreysti í þingsal.]