139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

Íbúðalánasjóður.

[10:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir að Landsbankinn hefur boðað frekari aðgerðir til að koma til hjálpar skuldugum heimilum. Ákvörðun bankans er reist, eins og kemur fram í tilkynningu frá honum, á samkeppnislegum forsendum en það vekur auðvitað athygli að hér er um að ræða ríkisbanka sem er 80% í eigu íslenska ríkisins.

Þessi ákvörðun Landsbankans vekur hins vegar þær hugleiðingar að stærsti hluti lána til íbúðakaupa er af hálfu Íbúðalánasjóðs. Og maður spyr sig auðvitað: Hvað boðar það gagnvart Íbúðalánasjóði þegar Landsbankinn tekur ákvörðun af þessu tagi eða þegar slík ákvörðun er tekin á almennum markaði?

Það kom fram hér á föstudaginn að ráðherrar í ríkisstjórninni sem hafa tjáð sig um þetta mál eru ósammála um þýðingu þess. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sagði í fyrirspurnatíma á þinginu, með leyfi forseta:

„Ég vil segja það varðandi Íbúðalánasjóð að hann stendur ekki vel. Hann fór eins langt og hann gat þegar við fórum í þessar aðgerðir, svokallaða 110%-leið, sem ég held að sé að skila mörgum mjög miklu. Ég held að það sé tæpast á hann leggjandi að fara lengra í því máli.“

Hæstv. efnahagsráðherra sagði á hinn bóginn, með leyfi forseta, að það væri erfitt að sjá rökin fyrir „ríkisreknum Íbúðalánasjóði ef hann getur ekki gert jafn vel við viðskiptamenn sína og fyrirtæki á samkeppnismarkaði“.

Mig langar í ljósi þessa, þeirra aðgerða sem Landsbankinn boðar og þeirrar stöðu sem Íbúðalánasjóður er í, sem langstærsti lánveitandi á íbúðalánamarkaði, að spyrja hæstv. velferðarráðherra sem yfirmann Íbúðalánasjóðs hvort hann hafi beitt sér gagnvart Íbúðalánasjóði í þessu máli, hver skoðun ráðherrans sé á stöðu Íbúðalánasjóðs þegar að þessu kemur og hvort hann hafi af þessu tilefni rætt við fulltrúa sína í stjórn Íbúðalánasjóðs og farið fram á það við þá að þeir beiti sér fyrir því að þeir sem eru lántakendur hjá Íbúðalánasjóði njóti þeirra (Forseti hringir.) hagsbóta sem hugsanlega væri hægt að fá í þeirri stöðu sem uppi er.