139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

Íbúðalánasjóður.

[10:56]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er vakið máls á því að Landsbankinn hefur bætt aðeins í frá því desembersamkomulagi sem gert var um niðurfærslu skulda og ég fagna því að hann kemur þar inn með endurgreiðslu á vöxtum og eins ákvað hann að taka mið af fasteignamati eingöngu en ekki matsverði.

Það vill þannig til að Íbúðalánasjóður gerði sínar breytingar með lagabreytingum í þinginu. Þá var meðal annars lögfest að þar megi færa niður lán, annars vegar að nota skuli fasteignamat eða mat fasteignasala og það eigi að nota það mat sem er hærra. Þannig afgreiddi þingið það og gekk frá því þannig að við erum bundin af því.

Það kom líka í ljós í þeirri umræðu að peningar sem við leggjum til, verulegir fjármuni, við töluðum um að leggja 20–22 milljarða í 110%-leiðina til að endurfjármagna Íbúðalánasjóð og gefa honum betri stöðu hvað varðar eigið fé, eru nánast beint úr ríkissjóði, þ.e. Alþingi verður að leggja þá peninga fram og íslenska þjóðin. Ég mun að sjálfsögðu skoða þau tilfelli sem komu upp en það verður að vera með öllum þeim fyrirvörum sem eru á því að fjárveitingavaldið á Alþingi verður að afgreiða málið og hvaða svigrúm við teljum okkur hafa varðandi Íbúðalánasjóð.

Ég er þeirrar skoðunar að Íbúðalánasjóður eigi að fara varlega en hann stendur að mörgu leyti betur en aðrar lánastofnanir vegna þess að þrátt fyrir allt fylgdi hann öðrum reglum í lánveitingum. Að vísu á eftir að gera úttekt á því hvaða áhrif Íbúðalánasjóður hafði á kerfið í heild. Ég hef ekki rætt við fulltrúa Íbúðalánasjóðs formlega enn þá en mun að sjálfsögðu gera það og fara yfir stöðuna í framhaldi af þessu. Ég hef rætt við þá um þetta fasteignamat, hvaða mat er lagt til grundvallar og þá erfiðleika sem þar hafa komið fram vegna þess að fasteignasalar meta eignir mjög mismunandi. Það veldur vandræðum en ég hef gefið þau fyrirmæli almennt og haft þá skoðun að menn eigi að ganga eins langt og hægt er (Forseti hringir.) með vilja Alþingis til að aðgerðir nýtist skuldurum.