139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

ávísuð lyf til fíkla.

[11:08]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get bara tekið undir með fyrirspyrjanda, hv. þm. Kristjáni L. Möller, þegar hann segir að við eigum að viðurkenna brotalamirnar sem hafa verið og leita allra leiða til að bregðast hratt og vel við. Ég fagna því og held að það sé afar mikilvægt að nefndir þingsins, heilbrigðisnefnd í þessu tilfelli, kalli til sín alla aðila, fari yfir málið, hafi skoðanir á málinu og fylgi þeim eftir þar. Það hefur líka komið fram að annmarkar eru á þessum lyfjagagnagrunni og að auki höfum við ekki komist nógu langt í rafvæðingu yfirleitt. Við erum búin að samþykkja rafrænu sjúkraskrána en höfum ekki sett peninga í að innleiða hana á viðunandi veg. Það er engin afsökun, ég er ekki að nota það sem afsökun, ég er eingöngu að benda á að við eigum mörg skref óstigin í þessa veru.

Samtímis ætla ég að vona að umræða af þessu tagi verði til þess, eins og ég sagði, að hvert einasta heimili, hver einasti einstaklingur, hver einasti skóli, hver einasta stofnun sem er að vinna að þessum málum, lögreglan og löggæslan, og við öll sem samfélag skoðum hvað við erum að gera í málunum, hvernig við getum komið til hjálpar, hvernig við getum aðstoðað við að hindra þetta og hvernig við (Forseti hringir.) getum afmáð þennan dökka blett af samfélagi okkar.