139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að þau mál sem hér er óskað eftir að verði rædd í dag fram á kvöld hefðu með réttu, þau sem stafa frá ríkisstjórninni, átt að koma fram fyrir 1. apríl. Þær reglur eru engin tilviljun. Þær hafa með það að gera hvaða líkur eru á því að ríkisstjórnin nái málum fram og hvernig mál geta fallið að eðlilegum starfstíma þingsins.

Ég er með í höndunum starfsáætlun þingsins, það eru örfáir dagar eftir fram að sumarhléi. Við höfum síðan líka fundi í september upp á að hlaupa ef okkur tekst ekki að ljúka því sem til stendur að gera á vorþinginu. Þegar við erum að greiða atkvæði um lengdan þingfundatíma í dag liggur fyrir að það er ekki komið samkomulag um það hvernig við ljúkum þingstörfum. Síðan er hæstv. forsætisráðherra með hótanir um að ætla að kalla saman Alþingi til sérstaks þings í sumar. Það er ekki við því að búast að það sé mikill stuðningur við að lengja þingfundi hér í miðri viku þegar forsætisráðherrann hefur uppi slíkar hótanir og ríkisstjórnin sjálf er allt of seint á ferðinni með málið þannig að stangast á við þingsköp.