139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki verið rætt um eitthvert samkomulag um að hér yrðu kvöldfundir. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að við féllumst á að byrja fyrr það sem eftir lifir þings sem ég held að sé bara býsna góð sátt um og að allir hafi verið á því. Um kvöldfundi höfum við hins vegar ekki rætt.

Ég held að það hljóti að verða hluti af því þegar hér verður gert eitt allsherjarsamkomulag um það hvernig við ljúkum þingstörfunum að ræða hvort við þurfum kvöldfundi eða aukadaga eða hvernig það verður. Það er ekki enn þá komið að því.

Ég vil þó segja eitt, frú forseti, varðandi þetta, hér hefur verið boðið upp á að hið svokallaða minna mál, 826. mál, fái hér eðlilega meðferð í þinginu en hitt, 827. málið, verði látið bíða vegna þess að það er ekki tilbúið til að koma hér inn í þingsal. (Forseti hringir.) Það verður í fyrsta lagi eftir 9. júní sem það verður tilbúið.