139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:39]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hyggst bera klæði á vopnin. Ég var einmitt að lesa framlag mitt til umræðunnar 20. maí sem mun hafa verið föstudagur fyrir tíu dögum þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson stóð hér upp og gerði þá athugasemd við fundarstjórn forseta að ekki væru á dagskrá þau mál sem mestu skiptu á þeim tíma, nefnilega málin um fiskveiðistjórn. Forseti fór ekki að þeim ráðleggingum Einars K. Guðfinnssonar að setja málið á dagskrá og ræða það. Ég bar þá fram fyrir hans hönd og sjálfstæðismanna þá tillögu að þetta yrði gert þann sama dag en á það féllst forseti ekki, (Gripið fram í.) nokkuð grimmlyndur forseti og við verðum víst að búa við það.

Núna hefur hv. þm. Einar K. Guðfinnsson algjörlega skipt um skoðun og vill ekki ræða málin sem hann vildi ræða 20. maí. (Forseti hringir.) Ég ber þau klæði á vopnin að leggja til að hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni verði sýndar þær ræður sem hann flutti 20. maí og látinn þegja hér eftir.