139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:42]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það hefur verið vísað í að hér þurfi kvöldfund og það sé hefð fyrir því í þinginu og að sú færibandaafgreiðsla á lögum sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi á síðustu dögum þingsins sé eitthvað til að hafa til fyrirmyndar. Ég hafna því. Síðustu tvö árin hefur mikið verið talað að hér þyrfti að breyta vinnubrögðum, vanda sig við lagasetningu og taka sér þann tíma sem þarf í hana. Hér hefur líka verið talað um að bera frekari virðingu fyrir barnafólki svo venjulegt fjölskyldufólk geti setið á þingi án þess að þurfa að fórna öllu fjölskyldulífinu. Það er ekki gert með þeirri tillögu forseta sem nú liggur fyrir. Ég legg til að þessi mál, öll þrjú, verði tekin til umræðu. Tvö þeirra, mál ríkisstjórnarinnar, eru mjög vanbúin en þriðja málið má ræða í þaula. Það er mjög gott mál, það er frumvarp Hreyfingarinnar, en að hér séu haldnir kvöldfundir um málið er óþarfi. Það er bara ekki góður bragur á því að halda áfram með sömu vinnubrögð og voru (Forseti hringir.) í gangi fyrir hrunið.