139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum er ég frekar óánægður með fundarstjórn forseta og vinnubrögðin í þinginu.

Ég spyr: Er til of mikils mælst að forseti upplýsi um þá dagskrá sem er fram undan næstu tvær vikurnar? Við erum að fara að ræða einhver mestu hagsmunamál þjóðarinnar og við þurfum að ræða þau málefnalega. Getur ríkisstjórnin ekki einfaldlega komið fram við þingheim af virðingu, og ekki síst þjóðina, og sagt: Svona ætlum við að haga vinnubrögðunum á Alþingi næstu tvær vikurnar? Ég ítreka þá beiðni mína til hæstv. forseta að hún beiti sér fyrir því að umræðan verði málefnaleg og að hér sýnum við þjóðinni að við ætlum að reyna af öllum mætti að auka virðingu Alþingis. (Gripið fram í.)