139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram og þann rökstuðning sem er fluttur hér gegn kvöldfundum út af þessum málum. Það er alveg ljóst að miðað við eðlilega málsmeðferð í þinginu er enginn tími til að vinna sómasamlega þau mál sem hér eru á dagskrá í dag.

Það á eftir að leita umsagna um þessi stóru og mikilvægu mál. Um þau er mikill ágreiningur í samfélaginu og það eiga eftir að fara fram ítarlegar skoðanir af hálfu hagfræðinga um áhrif þess á þjóðarbúið að fara þær leiðir sem hér eru boðaðar. Það er alveg ómögulegt að klára þetta á þeim dögum sem eftir eru og því engin ástæða til að setja þessi mál á dagskrá, enn síður ástæða til að ræða þau hér á næturlöngum fundum.

Það er rétt, virðulegi forseti, sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni áðan, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði af hverju þessi mál kæmu ekki á dagskrá. Við sjálfstæðismenn höfum gert það, við höfum kallað eftir því að þessi mál kæmu á dagskrá. (Forseti hringir.) Til hvers? Jú, til þess að þau mætti vinna sómasamlega en ekki með einhverjum handarbakavinnubrögðum (Forseti hringir.) eins og eru boðuð hér núna.