139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

afbrigði um dagskrármál.

[11:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið boðið upp á ákveðnar leiðir til að ræða sjávarútvegsmál en þeim hefur fram að þessu verið hafnað. Þess vegna er ekki hægt að greiða atkvæði með því að mál sem er ekki þingtækt komi á dagskrá. Hér hefur skýrt komið fram, frú forseti, að í fyrsta lagi 9. júní verði birt álit hagfræðihóps sem er að skoða þetta stóra mál. Það er margt sem bendir til þess að málið sé óþingtækt og því er ábyrgð forseta mjög mikil þegar hún setur það á dagskrá.

Síðan get ég ekki annað en tekið undir orð hv. þm. Bjarna Benediktssonar, það er athyglisvert að sjá að Hreyfingin hefur ákveðið að semja við meiri hlutann (Gripið fram í: Nei.) um hvernig á að standa að því að (Gripið fram í.) koma sjávarútvegsmálunum á framfæri og í gegn. Það er athyglisvert. Nú fjúka prinsippin, hæstv. utanríkisráðherra.