139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

orð fjármálaráðherra -- umræða um stjórn fiskveiða.

[11:54]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þeirri fundarstjórn forseta sem hér hefur átt sér stað þar sem þrjú mjög mikilvæg mál eru tekin á dagskrá í einu. Ástæðan fyrir því að Hreyfingin á hér mál er sú að hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er algjörlega óboðlegt að eingöngu verði kosið um annars vegar óbreytt ástand og hins vegar málamyndafrumvarp ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna, og þess vegna eingöngu, hristi Hreyfingin fram þetta mjög vandaða frumvarp og þessa róttæku breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu [Kliður í þingsal.] sem mun nú væntanlega, samkvæmt yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra, fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er til eftirbreytni fyrir lýðræðið í landinu að fylgja svona vinnubrögðum og svona fundarstjórn er til fyrirmyndar. Takk fyrir það.