139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga á þskj. 1474 sem er mál nr. 826 á þessu þingi. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en með því eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er hluti af þeim breytingum sem boðaðar eru í samstarfsyfirlýsingu núverandi stjórnarflokka. Þessa stefnu höfum við séð í framkvæmd í fyrri ákvörðunum sem innleiddar hafa verið í lög um strandveiðar, útboð á aflaheimildum í skötusel, aukningu í byggðatengdum aflaheimildum, takmörkun dragnótaveiða, reglur um takmarkaðan útflutning óunnins afla og fleira sem hefur komið til framkvæmda á starfstíma þessarar ríkisstjórnar. Auk reglugerðarbreytinga hafa þessar breytingar farið fyrir Alþingi með lögum nr. 66/2009, um frístundaveiðar, lögum nr. 22/2010, um skötusel, veiðiskyldu og fleiri atriði, lögum nr. 32/2010, um strandveiðar, og lögum nr. 74/2010, um svokallaðan byggðakvóta.

Ég vil í þessu sambandi minna hv. þingmenn á að margar af þeim breytingum sem hér er bent á hafa orðið byggðum landsins mikil lyftistöng og þó að um þetta hafi verið skiptar skoðanir og ýmsir mótmælt þeim þegar þær voru í undirbúningi hafa þær allar reynst vel og komið ekki síst til móts við kröfur almennings vítt og breitt í sjávarbyggðunum. Til dæmis á reynsla undanfarinna missira af strandveiðum, útboði aflaheimilda í skötusel og fleiri ráðstöfunum sem gripið hefur verið til að kenna okkur að það er gott að vinna málefnalega og hafa umræðuna um þau efni hófstillta. Ég treysti því að svo verði áfram um þau mál sem hér eru lögð fram.

Þær breytingar sem lagðar eru til í því frumvarpi sem við ræðum í dag eru fjölþættar og snúa að mörgum þáttum fiskveiðistjórnar. Ég ítreka að það frumvarp sem hér er mælt fyrir og er fyrst til umræðu er frumvarp til laga um breytingar á núgildandi lögum. Þær breytingar lúta eins og ég gat um áðan að strandveiði, aflamarki, samstarfi, tekjum af veiðigjaldi og öðrum tímabundnum ákvæðum.

Í fyrsta lagi ætla ég að víkja að 1. gr. frumvarpsins þar sem lagðar eru til nokkrar smærri breytingar á tilhögun strandveiða með ákvæðum sem taka til smærri báta í strandveiðinni. Markmiðið er að skapa smærri bátum innan þessa flota betri skilyrði og ákveðna sérstöðu innan kerfisins. Þá eru gerðar tillögur um að mögulegt sé að skipta afla strandveiðibátanna á önnur tímabil en mánuði, en eins og við þekkjum kveða núgildandi lög á um að þeim tilteknu aflaheimildum sem ráðstafað er til strandveiða sé skipt bæði á landsvæði og svo líka innan landsvæðanna á mánuði. Hér er gerð tillaga um að skipta megi því enn frekar, t.d. skipta mánuðunum í tvo hluta, þ.e. niður í tveggja vikna tímabil. Mikilvægasta kerfisbreyting strandveiða er þó að með þeirri lagabreytingu sem hér er um að ræða er áréttað að hver aðili geti aðeins rekið einn bát í strandveiðikerfi og er það í samræmi við upphaflegan tilgang strandveiðanna. Í þessu skyni er gerð tillaga um að lögbinda að eigandi fiskiskips í strandveiði skuli lögskráður á skipið sitt. Hér er stigið ákveðið skref í þessum efnum til að ná því markmiði sem var haft að leiðarljósi við setningu laga um strandveiðar en dugi það ekki gæti þurft að koma til enn frekari aðgerða.

Það sem ég hef í huga er að ef frumvarpið nær ekki markmiði sínu er hægt að veita rétt til strandveiða á einstaklingsgrunni til að tryggja að markmiðið náist, þ.e. þetta er réttur einstaklingsins til að stunda veiðar, þó með þessum takmarkaða hætti, fénýta sér aflann með tilteknum hætti án þess að þurfa að hafa keypt til þess veiðiheimildir.

Þá er gerð sú breyting að hámarksheimild til ráðstöfunar í strandveiði hækkar úr 6 þús. tonnum í 9 þús. tonn af þorski, ýsu og ufsa (Gripið fram í: Heyr, heyr.) á þessu og næsta fiskveiðiári. Ég legg áherslu á að verið er að sækja um lagaheimild til að mega fara í þessa aukningu eins og hér er talað um. Hér er tiltekið að um sé að ræða aflaheimildir sem eru teknar af aukningu heildaraflamarks í viðkomandi tegundum og verði hún ákveðin í sumar þannig að núverandi aflahlutdeildarhafar verða ekki skertir frá því aflamarki sem gildir á fiskveiðiárinu 2010/2011 nema til komi lækkun í ákvörðun heildaraflamarks. Hér er að sjálfsögðu horft til þess að allar góðar vísbendingar bendi til möguleika á að auka veiðar á þorski, að stofninn sé að stækka og vaxi meira að segja hraðar en helstu væntingar voru um. Þá gefst svigrúm til að úthluta þeirri viðbót sem þar gæti verið á ferðinni með þeim hætti sem hér er tilgreindur.

Ég vil í tengslum við þessar breytingar árétta fyrir hinu háa Alþingi að skýrslur um strandveiðina hafa sýnt að þessi breyting hefur haft umtalsverð áhrif til góðs fyrir hin smærri byggðarlög. Heildarhlutdeild strandveiða í fiskveiðum þjóðarinnar er eftir þessa breytingu um 4%. Þar er ég að tala um hlutfallið af mögulegri aukningu úr 6 þús. í 9 þús. tonn. Rökin fyrir strandveiðum eru fjölmörg og þar koma til einstaklingsbundin réttindi hvers manns til að stunda sjávarútveg, tölur um orkunotkun bak við hvert kíló af afla, ferskleiki, gæði afurða og beinn rekstur heimamanna og byggðarlaga.

Í öðru lagi eru lagabreytingar sem víkja að stöðu byggðarlaga. Það skal alveg sagt hér að ein af megináherslum í breytingum á lögum um stjórn fiskveiða sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir á þeim tíma sem hún hefur starfað og nú áfram er að treysta stöðu og rétt sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið til að njóta þeirrar auðlindar sem fyrir ströndum þeirra er. Við þekkjum þá umræðu að mörgum minni sjávarbyggðum, og þótt stærri séu, hefur þótt réttur sinn veikur og lítill þegar þær hafa orðið að horfa upp á sölu eða tilflutning aflaheimilda úr byggðarlögunum án þess að íbúarnir fái þar nokkru um ráðið. Í þessu frumvarpi er því gerð tillaga, sem ég vil árétta að er tillaga, til breytingar á núgildandi lögum um breytingu á hámarksafla sem runnið geti til byggðatengdrar úthlutunar aflaheimilda, að hún hækki úr 12 þús. í 20 þús. tonn. Þá eru stigin skref í þá átt að færa ráðstöfunarrétt aflaheimilda frá hinu miðlæga framkvæmdarvaldi til sveitarstjórna. Þetta verður þó valkvætt þannig að kjósi einstök sveitarfélög að ríkisvaldið og stofnanir þess sjái um ráðstöfun byggðatengdra aflaheimilda er þeim að sjálfsögðu heimilt að fara þá leið en hér er tiltekið að um er að ræða aflaheimildir sem eru teknar af aukningu heildaraflamarks í viðkomandi stofnun þegar hún verður ákveðin í sumar. Núverandi aflahlutdeildarhafar verða því ekki skertir frá því aflamarki sem gildir á fiskveiðiárinu 2010/2011 nema til komi lækkun í ákvörðun heildaraflamarks. Þarna vísa ég áfram til þess að við berum væntingar til þess að auka megi aflaheimildir í þorski þegar ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir næsta ár kemur.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um 70% hækkun veiðigjalds og skiptingu þess. Hækkun veiðigjalds um 70% er talin sanngjörn og gengur í átt að þeim sjónarmiðum sem njóta fylgis meðal þjóðarinnar um að greitt sé afgjald af auðlindinni. Í þessum tillögum er gert ráð fyrir að veiðigjaldinu sé skipt milli ríkis og sjávarbyggða í hlutfallinu 1:4 þannig að 4/5 veiðigjalds fari til ríkisins og 1/5 til sjávarbyggða samkvæmt sérstökum reiknireglum. Lögð er áhersla á að sjávarbyggðirnar hafi þarna líka skilgreinda hlutdeild í því þegar auðlindin er skattlögð með þessum hætti og þá geti ákveðinn hluti þeirrar gjaldtöku runnið til þess að styrkja og standa vörð um viðkomandi sjávarbyggðir því að veiðigjaldið leggst á þær útgerðir og þá starfsemi sem þar er. Því er að mínu viti sanngjarnt að þessu sé deilt út.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir ákveðnum tillögum um hvernig þessi skipting fari fram. Það má vel hugsa sér aðrar útfærslur á því og mér finnst rétt að nefndin skoði það en að mínu viti er þetta gríðarlega mikilvæg pólitísk ákvörðun um að þessi skipting fari svona fram. Við höfum í mörgum orðum talað um, ekki síst úr ræðustól Alþingis, hvernig við gætum komið að því að standa betri og sterkari vörð um sjávarbyggðirnar og rétt íbúanna til að njóta þessarar auðlindar. Þó að hún sé í sjálfu sér þjóðarinnar allrar er hún ekki hvað síst grunnur þess byggðamunsturs sem við höfum byggt upp í landinu með sjávarbyggðum sem eru næstar hinum gjöfulu fiskimiðum. Því er eðlilegt að við stöndum vörð um þessa sameiginlegu hagsmuni og þessi sameiginlegu gildi sem íslenskt samfélag byggir á. Þar horfi ég til stöðu sjávarbyggðanna. Í umræðunni um stjórn fiskveiða og afleiðingar fiskveiðistjórnarkerfisins á síðustu árum hefur ekki hvað síst verið vakin athygli á og dregin fram hin veika staða hinna minni sjávarbyggða í þeirri samkeppni og þeirri stöðu sem hefur komið upp varðandi kaup og sölu á aflaheimildum þar sem íbúarnir hafa litlu fengið ráðið um hvað gerðist. Markmiðið allt snýr að því að við erum að reyna að tryggja stöðu sjávarbyggðanna enn betur, mun betur en verið hefur, og við teljum að það sé ekki aðeins gott fyrir sjávarbyggðirnar heldur líka þjóðhagslega afar hagkvæmt.

Þegar talað er um sjávarútveginn segja margir að hann þurfi að fylgja þremur meginreglum. Hann þarf að vera líffræðilega sjálfbær því að við þurfum að gæta þess þegar við umgöngumst þessa mikilvægu auðlind okkar að hún sé sjálfbær, a.m.k. hvað okkur varðar og nálgun okkar í veiðum og meðferð. Í öðru lagi þarf hún líka að vera í sjálfu sér rekstrarlega sjálfbær og í þriðja lagi þarf hún að vera samfélagslega sjálfbær þannig að enginn þáttur rekist of harkalega á annan. Við verðum að vega þetta allt saman. Í því felst líka hin stóra sátt.

Við getum vitnað til margra skýrslna í þessum efnum. Sérstaklega er mér minnisstæð skýrsla sem Vífill Karlsson dósent kynnti á fundi á Ísafirði fyrir skömmu þar sem hann rakti hvernig útgjöld og tekjur hinna ólíku landshluta gengju rangt á milli. Þannig segir hann að 75% allra opinberra útgjalda hafi runnið til athafna og starfa í Reykjavík en að aðeins um 40% af þeim tekjum sem standa að baki útgjöldunum verði þar til. Landsbyggðin utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja leggur hins vegar til 30% af heildartekjum hins opinbera en fær aftur á móti í sinn hlut til opinberrar starfsemi aðeins um 15%. Það er dósentinn sem leggur fram þessar tölur og ég ætla ekki að rekja þær en við þekkjum þessa umræðu. Sú ákvörðun að leggja til þessa skiptingu er pólitísk ákvörðun um það hvort við ætlum í raun og í verki að sýna sjávarbyggðunum þessa stefnu eða ekki. Ég legg svo afdráttarlaust til að við gerum það, menn geta velt fyrir sér tæknilegri útfærslu á málinu en þetta ætti að vera hin klára stefnumörkun.

Í fjórða lagi er í lagafrumvarpi þessu ákvæði um sérstaka úthlutun á aflamarki í skötusel og sumargotssíld, löngu og keilu. Gert er ráð fyrir að á yfirstandandi og næsta fiskveiðiári hafi ráðherra til sérstakrar úthlutunar 2000 lestir af sumargotssíld bæði árin og seinna árið 1.200 lestir af skötusel. Gert er ráð fyrir að heimildir þessar verði leigðar út eftir sérstökum reglum og sérstöku verði sem tilgreint er í frumvarpinu. Reynslan af skötuselsákvæðinu hefur fram að þessu verið góð og engin ástæða til að láta staðar numið. Með því að leggja til að sumargotssíld komi þar inn er verið að taka á meðaflamálum, sérstaklega vegna makrílveiða, í þeirri von að möguleiki skapist til veiða í þessari tegund út frá strandsvæðunum.

Ég bendi sérstaklega á að við stjórn makrílveiða hefur líka verið farið alveg inn á nýjar brautir í ráðstöfun veiðiheimilda þar sem reynt er að tryggja að flotinn, hvort sem það eru stór skip, frystiskip, ísfiskskip eða minni bátar, geti allur átt möguleika á að veiða makríl. Við minnumst þess hvernig hann fór í miklu magni kringum allt land upp í strendur og upp að bryggjusporðum hvar sem var á landinu. Með makrílveiðum slæðist gjarnan með nokkur síld og til að geta stundað þessar veiðar er mikilvægt að þeir geti jafnframt átt aðgang að nokkurri síld til að leysa meðaflavandamálið.

Tekjur af þessum aflaheimildum skulu renna í ríkissjóð og skal þeim ráðstafað á þann veg að þær renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun í sjávarbyggðum. Þá er og á fiskveiðiárinu því næsta lagt til að hluti af keilu- og lönguafla skips reiknist ekki til aflamarks þess í því skyni að mæta vandamálum vegna meðafla. Sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skipsins skal ekki nema meira en um 10% af heildarafla annarrar tegundar en keilu og löngu miðað við óslægðan fisk sem landað er hverju sinni að frátöldum þeim afla sem fluttur er óvistaður á markað erlendis. Heimild þessi er háð þeim skilyrðum sem tilgreind eru í frumvarpinu, af andvirði afla þessara tegunda skulu aðeins 20% renna til útgerða og áhafna sem tryggir að heimildin eykur ekki sókn í stofnana en kemur í veg fyrir brottkast. Ákvæðið takmarkast við 1 þús. lestir af keilu og 2 þús. lestir af löngu á hvoru fiskveiðiári.

Við þekkjum umræðuna um meðaflavandamál. Þegar einstakar tegundir breyta til dæmis um útbreiðslusvæði og eru allt í einu orðnar miklu stærri hluti í blandaðri veiði en menn gerðu ráð fyrir eða höfðu aflaheimildir fyrir geta menn staðið frammi fyrir vanda og með þessum ákvæðum um fisktegundirnar tvær er reynt að koma til móts við það, þó með þeim hætti að ekki skuli það hvetja til beinnar sóknar í viðkomandi stofna, heldur til þess að vera hluti af því að leysa vandamál sem koma í blandaðri veiði. Þessar fisktegundir koma þar upp.

Í fimmta lagi eru í þessu frumvarpi allnokkrar tæknilegar breytingar á núverandi stjórn fiskveiða. Til dæmis er gert ráð fyrir jöfnunaraðgerð í þá veru að allir aflamarkshafar taki jafnan þátt í að leggja til hlut í núverandi byggðaaðgerðir, línuívilnun og strandveiðar. Fram til þessa hafa þeir aðeins lagt til í þessar aflaheimildir í þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Eins og ég segi hefur aðeins verið tekið í þessar aðgerðir úr aflaheimildum þeirra sem eru með aflahlutdeildir í þessum tegundum en ekki frá þeim sem eru með aflahlutdeildir í öðrum fisktegundum. Meginaðgerðir okkar í þessum jöfnunaraðgerðum eru í þorski, ýsu, ufsa og steinbít.

Hér er um jafnræðismál að ræða og má í þessu sambandi minna á mál nr. 468 á þskj. 808 frá 138. löggjafarþingi, en þar var sambærileg tillaga flutt af hv. alþingismönnum Einari Kristni Guðfinnssyni, Ásbirni Óttarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni.

Gert er ráð fyrir að tegundatilfærsla geti mest orðið 30%. Tegundatilfærsla er mikilvæg til að koma í veg fyrir brottkast, en óheppilegt er þegar allt að 80% af heildaraflamarki einstakra tegunda eru ekki veidd, heldur fara í tilfærslur innan kerfisins. Með þessari breytingu á tegundatilfærslu á hún að verða eðlilegri og í samræmi við þau markmið sem sett voru í upphafi, þ.e. að það sé svigrúm til að skipta út tegundum í blandaðri veiði en ekki til þess hreinlega að skipta því út og án þess að hafa það að markmiði að veiða þær viðkomandi tegundir sem viðkomandi er með aflaheimildir fyrir heldur að skipta þeim út fyrir aðrar.

Þá er gert ráð fyrir að skipta megi svokölluðum VS-aflaheimildum innan ársins á tímabil. Þetta eru aflaheimildir sem útgerðir hafa til þess að koma með að landi ákveðin umframprósent af einstökum fisktegundum sem þær hafa ekki aflaheimildir fyrir. Þetta hefur verið eins og uppgjör eftir árið en nú er lagt til að það megi dreifa þessum umframaflaheimildum, sem er náttúrlega fyrst og fremst til að fyrirbyggja brottkast, á árið þannig að ekki sé hægt að stunda veiðar beint út á þessar heimildir.

Að lokum vil ég nefna að ekki er að finna í frumvarpi þessu ákvæði er framlengi bráðabirgðaákvæði IX í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Það ákvæði segir að á tveimur fiskveiðiárum, 2009/2010 og 2010/2011, skuli með sérstökum hætti allt að 200 lestar af óslægðum botnfiski boðnar þeim til leigu sem hafa leyfi til frístundaveiða skv. 2. tölul. 4. mgr. 6. gr. laganna. Þetta eru stórir ferðaþjónustubátar þar sem farþegar stunda sjóstangaveiði. Hefur verið miðað við ákveðið meðalverð í viðskiptum með aflamark og hafa útgerðirnar þurft að greiða þetta verð fyrir þær. Reynslan af þessu ákvæði hefur verið góð fram að þessu að því leytinu til að þörf virðist mikil. Þetta skapar ákveðið rekstraröryggi hjá útgerðum þessara ferðaþjónustubáta.

Ég tel rétt að mæla með því við hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að hún taki þetta atriði til meðferðar og einnig þann möguleika að annaðhvort framlengja bráðabirgðaákvæði í núgildandi lögum sem rennur út í sumar eða eftir atvikum að festa það fyrirkomulag í sessi með staðfestri lagabreytingu. Einnig vil ég biðja nefndina að athuga hvort ástæða sé til að hækka það 200 lesta viðmið sem sett var fyrir þessa ferðaþjónustubáta.

Ég nefni þetta hér því að það var ætlun mín að þetta væri í frumvarpinu. Ég tel að ferðaþjónusta og fiskveiðar og sú útgerð sem tengist því sé alveg gríðarlega mikilvæg. Við höfum rætt um það áður á þinginu að við eigum að koma eins og kostur er til móts við þessa aðila. Þetta er ný atvinnugrein sem byggir á sjávarauðlindinni. Hvar við setjum mörkin í þeim efnum er matsatriði, í fyrra var miðað við 200 lestir en þetta er til að tryggja að ákveðið magn sé frátekið í þetta. Reyndin varð sú að þegar ferðaþjónustuaðilarnir þurftu að sækja sér þessar heimildir á almennum markaði var erfitt að nálgast aflaheimildir til þessara ferðaþjónustuveiða þegar komið var fram í ágúst, síðasta mánuð fiskveiðiársins, og þá voru ferðaþjónustuaðilar í vandræðum með að standa undir væntingum viðskiptavina sinna.

Þetta vil ég nefna hér að lokum, frú forseti. Ég hef farið yfir efnisatriði þessa frumvarps sem lúta fyrst og fremst að tilteknum breytingum á núgildandi lögum. Ég legg þær fram fyrir Alþingi til meðhöndlunar og vona að frumvarpið verði samþykkt. Ég legg áherslu á samþykkt þess á yfirstandandi þingi, núna á vordögum, til að geta komið þar með til móts við og svarað kalli almennings um þessar tilteknu úrbætur í stjórn fiskveiða. Strandveiðin hefur fest sig í sessi með lögum og með þessum aðgerðum getur orðið sátt um þann hluta sem til hennar rennur. Þá er hinn þátturinn eins og ég sagði fólginn í áherslu á byggðaþátt sjávarútvegsins og það mikla hlutverk sem hann hefur í þeim efnum. Eins og við þekkjum koma hér reglulega inn beiðnir. Við minnumst Flateyrar sem kom inn í fyrravetur og reynt var að bregðast við fleiri sjávarbyggðum. Heimildir samkvæmt núgildandi lögum eru fullnýttar í þessar aðgerðir og ég vil meina að þær séu gríðarlega mikilvægar fyrir þau byggðarlög sem eiga hlut að máli. Þær skipta oft sköpum fyrir veiðar og vinnslu og byggð á þeim stöðum.

Eins og ég segi eru lagaheimildir ekki fyrir hendi til að auka við þessa þætti, hvorki í strandveiðar né byggðatengdar aðgerðir. Með þessu frumvarpi er verið að sækja um heimildir til að mega gera það. Ég hef sagt það áður að fáist þessar heimildir finnst mér eðlilegt að skoða hvort auka megi þessar veiðar það sem eftir lifir af þessu fiskveiðiári en til þess þarf þá lagaheimildir.