139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður vék að er í því frumvarpi sem liggur fyrir um meginbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu gert ráð fyrir að þetta hlutfall sé hærra, það er alveg rétt. Þar ítrekast aftur stefna sjávarútvegsráðherra í þeim efnum.

Já, ég hef þá stefnu og þá bjargföstu trú að það sé grundvallaratriði fyrir þjóðina, fyrir sjávarútveginn í landinu, að við stöndum vörð um sjávarbyggðirnar. Sjávarútvegurinn og sá arður sem við tökum þar í gegn á ekki hvað síst að þjóna því pólitíska markmiði að standa vörð um, styrkja og efla sjávarbyggðirnar. (Gripið fram í.) Þetta þótti af ráðherra allnokkuð, eins og hv. þingmaður vék að, í umsögn fjármálaráðuneytisins, en það var ekki fjármálaráðherra heldur embættismenn fjármálaráðuneytisins sem komu með þá umsögn. Ég árétta (Forseti hringir.) að hérna er um pólitískt mál að ræða en ekki embættismannastig.