139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt undarlegt við þetta frumvarp og margt um það að segja. Það sem ég hjó eftir núna voru um það bil síðustu orð ráðherra þegar hæstv. ráðherra sagði að hann vildi standa vörð um sjávarbyggðirnar. Felst sú varnarbarátta virkilega í því að færa atvinnuréttinn frá einni sjávarbyggð til annarrar? Er það sá vörður sem á að standa um sjávarbyggðirnar, að setja eina sjávarbyggð í vanda til að bjarga einhverri annarri? Það getur ekki verið. Það hlýtur að þurfa að líta á málið heildstætt. Eins og ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað um sjávarútveginn virðist það vera planið, að færa frá einni byggð til annarrar. Ég trúi ekki að hæstv. ráðherra sé sömu skoðunar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í hækkunina á veiðigjaldinu sem er umtalsverð. Getur hæstv. ráðherra rökstutt það að leggja slíkan skatt á landsbyggðina? Þetta er bara landsbyggðarskattur, veiðigjaldið er fyrst og fremst landsbyggðarskattur. Ætlar hann svo (Forseti hringir.) að deila honum út hér með öðrum hætti en eðlilegt væri, þ.e. að láta þetta allt ganga aftur til byggðarlaganna?