139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra fylgir fáheyrð umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Af lestri þeirrar umsagnar sést mjög vel hvers konar vinnubrögð eru á ferðinni við samningu þessa frumvarps. Meginþungi í athugasemdum fjárlagaskrifstofunnar snýr að stjórnarskránni. Hér koma fram gríðarlegar áhyggjur af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um að með þessu frumvarpi brjóti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hreinlega og gangi gegn stjórnarskrá lýðveldisins þegar kemur að jafnræðisreglunni við úthlutun veiðigjalds. Ég heyrði í andsvörum við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði ekki miklar áhyggjur af því, sagði að það væri fyrst og fremst pólitísk skoðun á því hvernig skilja ætti stjórnarskrá.

Ég spyr: Hvaða athuganir voru gerðar í aðdraganda að samningu þessa frumvarps á stjórnarskrárálitaefnum? Hvað hyggst ráðherrann gera til að bregðast við þessari umsögn? Getur verið að ráðherranum sé alvara með að leggja fram frumvarp (Forseti hringir.) sem svo berlega gengur gegn stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?