139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

fundarstjórn.

[15:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er rétt að fara aðeins betur yfir þetta. Þetta vekur upp spurningar um það hvernig þingið hagar framlagningu sinni á frumvörpum. Forseti Íslands samþykkir frumvarp frá ríkisstjórn. Síðan kemur það fyrir þingið og á þessu stigi er aldrei farið yfir það hvort frumvarp standist stjórnarskrána. Núna er komið tilefni til þess fyrir okkur á þinginu þegar hluti af framkvæmdarvaldinu sjálfu, þ.e. hæstv. fjármálaráðuneytið, kemur með athugasemdir til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að þetta frumvarp kunni að stangast á við stjórnarskrá.

Hvar getum við sett bremsuna á? Hvar getur þingið komið í veg fyrir að svona frumvörp séu lögð fram? Við heyrum örugglega á eftir frá stjórnarmeirihlutanum að þetta hafi oft verið gert en er þá ekki kominn tími til, m.a. í ljósi þeirrar skýrslu sem hefur verið lögð fyrir þingið, að menn fari varlega? Það liggur ljóst fyrir (Forseti hringir.) að fjármálaráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið eru ekki sammála um það hvort frumvarpið standist stjórnarskrá. Þess vegna vil ég gjarnan, frú forseti, vita hvort forseti þingsins (Forseti hringir.) ætli að fylgja þessu eftir.