139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

fundarstjórn.

[15:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við skulum átta okkur á því að við erum ekki að tala um neitt smámál. Við erum að tala um að hér hafi það gerst að fjármálaráðuneytið, fjárlagaskrifstofan, hafi sent frá sér álit þar sem látið er að því liggja að mögulega sé verið að brjóta stjórnarskrá. Eins og ég þekki málin er það þannig að áður en mál af þessu taginu er lagt fyrir Alþingi er meðal annars látið fara yfir það af lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins. Ég hefði ímyndað mér að það hefði komið fram ábending um þetta þegar fyrir lá þessi athugasemd frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Menn skulu ekki ímynda sér að þessi fjárlagaskrifstofa sé eitthvert sjálfstætt apparat sem ekki nokkur maður hafi vald yfir. Hinn pólitíski yfirmaður fjárlagaskrifstofunnar er hæstv. fjármálaráðherra. Það sem hefur undrað mig er sú staðreynd að hæstv. fjármálaráðherra skuli hafa treyst sér til að standa að framlagningu þessa máls og styðja það, þetta er stjórnarfrumvarp, í ljósi þeirra alvarlegu athugasemda sem hafa komið frá einni af undirskrifstofum ráðuneytis hans.