139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

fundarstjórn.

[15:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Aðeins um fundarstjórn forseta og það að þetta mál skuli vera komið á dagskrá og að ýmsir þingmenn hafi áhyggjur af því að það standist ekki stjórnarskrá. Nú hefði verið gott að hafa lagaskrifstofu Alþingis sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt hér til. 1. flutningsmaður er hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Þá hefði kannski verið hægt að leggja það þar fyrir, það væri skynsamleg leið.

Vegna þess að hér hafa komið upp þingmenn og sagt að hinn eðlilegi farvegur sé að hér yrði talað fyrir málinu sem fengi svo þinglega meðferð vil ég minna á að það stendur í 8. gr. þessa minna frumvarps sem við erum að tala um hér að það taki þegar gildi. Við erum með dagskrá sem lýkur 9. júní. Það á að taka tillit til yfirstandandi fiskveiðiárs. Hin þinglega meðferð á að taka sjö daga. Það á að vísa því til þingsins. Þar á að kalla inn umsagnaraðila. Það á að taka alls sjö daga. Þetta er náttúrlega ekki hægt og það hefði kannski verið skynsamlegt að setja það ekki á dagskrá í dag úr því að það komst ekki á dagskrá fyrir hálfum mánuði.