139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig að ekkert er frítt í þessum heimi þegar kemur að skattlagningu. Það er auðvitað augljóst mál að veiðigjaldið er í eðli sínu landsbyggðarskattur. Það er skattur á atvinnustarfsemi sem fer að 90% fram á landsbyggðinni.

Ég var að vekja athygli á að það er öðruvísi farið fram gagnvart þessari atvinnugrein þar sem uppruni teknanna er á landsbyggðinni en á að gilda um aðrar atvinnugreinar, m.a. atvinnugreinar sem nýta auðlindir sem að hluta til eru í sameiginlegri eigu ríkisins eða þjóðarinnar.

Ég er alveg tilbúinn til þess að velta því fyrir mér með hvaða hætti hægt væri að nýta sem mest af þeim tekjum sem fást af veiðigjaldinu til hagsbóta fyrir byggðirnar. Ég held að það séu ákveðin rök sem mæla með því að það sé gert með einhverjum hætti. Við vitum að það hefur orðið gríðarleg hagræðing í sjávarútveginum, hún hefur hins vegar kostað ýmislegt fyrir ýmsar smærri byggðir. Mér finnst ekkert óeðlilegt að við notum hluta af þessu fjármagni til þess að byggja upp aðra myndarlega atvinnustarfsemi eða aðra þjónustu, en ég var hins vegar að vekja (Forseti hringir.) athygli á því að hæstv. ráðherra er að stíga skrefið áfram gegn því. Hæstv. ráðherra heldur áfram að tryggja það að skattlagning sem á sér uppruna á landsbyggðinni (Forseti hringir.) fari síður til ráðstöfunar þar en áður.