139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Byggðakvóti er eins og orðið bendir til hugsaður til þess að mæta með sérstökum hætti þörfum byggðanna. Það sem við höfum verið að leggja þar til grundvallar er að hér sé ekki bara um að ræða einkamál þeirra sem gera út eða sjómanna, við erum líka að horfa til þeirra sem eru í landvinnslunni. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra eftir því áðan hvort gert væri ráð fyrir því í sveitarfélagshlutanum sem hæstv. ráðherra talar hér um að þeir sem fá byggðakvóta á þessum grundvelli þurfi þá að landa tvöföldu því magni sem þeir fá úthlutað úr byggðakvótanum til vinnslunnar til að tryggja það að vinnslan fái notið afrakstursins af byggðakvótanum og þar með atvinnusköpun í þessum litlu byggðarlögum. Um það tókst ágæt samstaða á sínum tíma. Ég leiddi það starf hér í gegnum þingið, það var þverpólitísk samstaða um það og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum — það fyrirkomulag sem þá var sett upp (Forseti hringir.) og hæstv. ráðherra hefur verið að lofsyngja núna. Þess vegna segi ég það að hæstv. ráðherra verður að sjá til þess að í einhverjum af nýjum útfærslum sínum tryggi hann ekki bara hag þeirra sem (Forseti hringir.) sækja sjóinn heldur líka þeirra sem vinna aflann í landi.