139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög athyglisverð samlíking sem hv. þingmaður kom með varðandi þjóðlendurnar. Ég skal bara játa það að ég hef ekki velt þessu fyrir mér í þessu samhengi áður en mér finnst þetta vera hlutur sem við ættum a.m.k. að velta upp þegar við ræðum þessi mál í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Aðeins varðandi veiðigjaldið að öðru leyti þá er það þannig að menn hvetja til þess í þessu frumvarpi að veiðigjaldið verði hækkað um 70% og hækki svo upp í 90% frá því sem hefur verið á þarnæsta fiskveiðiári. Það er auðvitað ljóst að þetta mun hafa afleiðingar. Það er alveg ljóst að þetta mun fremur en annað stuðla að samþjöppun. Þeir sem standa veikast fyrir og eiga erfiðast með að bæta á sig útgjöldum verða auðvitað að leita einhverra annarra leiða, kannski með því að selja sín skip og sínar aflaheimildir, kannski með því að sameinast öðrum fyrirtækjum og það rifjar upp fyrir mér gömlu umræðuna um veiðigjaldið eins og hún fór alltaf fram. Hún gekk út á það að það væri mjög mikilvægt að setja á veiðigjald til að knýja þá út úr greininni sem stæðu veikast og væru (Forseti hringir.) síst til þess fallnir að gera út og gefa þá meira rými fyrir hina sem eftir stæðu.