139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk ekki mikil svör út úr þessu en vil benda á að fyrir hvern dag fá menn á strandveiðum um 200 þús. kr. svo fimm dagar gera 1 milljón að lágmarki. Þó að þarna sé einhver olíukostnaður og tilfallandi afborganir af viðkomandi útgerð þætti mörgum gott að hafa þessar tekjur svo þetta er vissulega mikil búbót. Ég þekki það vel í þeim sjávarbyggðum sem eru í kringum mig. Menn skulu ekki gera lítið úr fimm dögum heldur horfa í þær tekjur sem koma út úr þeirri vinnu.

Ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann hvort hann teldi það framsal sem sett var á smábátaútgerð hafa verið til góðs sem og þá miklu samþjöppun sem þar varð og fækkun í smábátaútgerð á mörgum svæðum.