139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að tala um brúttótekjur í strandveiðunum en það segir ekki mikla sögu. Við vitum alveg að það sem hefur verið að gerast í strandveiðunum er að fjárfestingarkostnaðurinn hefur aukist. Þegar þær fréttir spurðust út að í frumvarpi hæstv. ráðherra væri gert ráð fyrir því að auka aflaheimildir til strandveiðibátanna hækkaði verðið á strandveiðibátunum. Bátarnir sjálfir eru í raun og veru andlag veiðiréttarins rétt eins og kvótinn er í kvótakerfinu. Þar með var um leið búið að hækka aðgangstakmarkanirnar inn í strandveiðarnar og gera það að verkum að menn þurfa að borga meira fyrir fjárfestingu sína.

Það er alveg rétt að það hefur orðið samþjöppun í smábátakerfinu. Ég fagna því hins vegar að það séu komnar stórar, öflugar útgerðir sem hafa meðal annars staðið fyrir fiskvinnslu á því svæði sem við hv. þingmaður komum frá og, já, mér finnst sú þróun að þessir öflugustu bátar fiska 1.000–1.500 tonn á ári fagnaðarefni.