139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í dag hefur margítrekað átt sér stað umræða um fundarstjórn forseta þar sem fjallað hefur verið um þetta frumvarp og kannski 3. dagskrármálið, svokallaða stóra frumvarp, sem bæði eru hér fram komin þegar aðeins sjö dagar eru eftir af starfsáætlun þingsins. Það er með ólíkindum að ekki skyldi hafa tekist að koma þessu máli fyrr inn, fyrir síðustu viku þegar hér voru nefndadagar. Sú vika er búin og hér hefjast þingfundir núna að jafnaði um hálfellefuleytið. Á þessum sjö dögum er auðvitað augljóst að á sama tíma getum við ekki unnið eins mikla nefndavinnu og til þyrfti. Þess vegna held ég að öllum sé augljóst að svokölluð eðlileg þingleg meðferð þessa máls verði engan veginn eðlileg.

Hér erum við fyrst og fremst að ljúka málum sem voru komin í 2. eða 3. umr., fyrir þá sem ekki þekkja þessa hefð hér og vinnulagið hér á þinginu. Það að senda mál út til umsagnar, sem gjarnan er gert fyrir hálfan mánuð og menn kvarta stóran yfir því að fá of stuttan tíma, verður til að mynda ekki hægt í þessu tilviki. Það er mjög bagalegt þar sem hér er fullt af sérkennilegum hlutum í gangi sem krefjast gagngerrar skoðunar og umræðu og nauðsynlegt að fá sem flest álit utan frá.

Það er merkilegt að horfa til þess að nánast öll samtök sjómanna, Landssamband smábátaeigenda og Landssamband íslenskra útvegsmanna, eru sammála að þessu sinni. Það er ekki oft samhljómur í þessum hópi en það eru allir sammála um að bæði þessi frumvörp séu þess eðlis að tími þeirra sé hreinlega ekki kominn og það sé rétt að setja þau í salt og vinna þau betur. Þeim finnst engin þörf á því að fara í þessar breytingar núna. Af því að við erum að ræða þetta svokallaða minna frumvarp þar sem gulrótin virðist vera sú að hér eigi að fara fram aukning aflaheimilda er hún einungis til þess að auka ráðherrapottinn fyrir einhverjar byggðajöfnunaraðgerðir, eftir því hvað ráðherra finnst, og þar er umtalsverð aukning, og svo einnig í strandveiðar á yfirstandandi ári og því næsta. Því er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig það sé nú með aflaregluna. Ekki mátti auka kvótann fyrr á þessu sama fiskveiðiári, hvernig stendur á því að það er hægt að auka hann umtalsvert núna? Hvaða gögn liggja þar til grundvallar? Erum við að fórna hagsmunum þess sem menn hafa verið að vinna hér í gæðamálum og fá vottun þess efnis að hér séu sjálfbærar veiðar grundvallaðar á langtímastefnumörkun og 20% aflareglu í — ég veit ekki hvort það má kalla það í einhverju pólitísku augnamiði, að slá ryki í augu fólks með því að auka hlutdeild eins hóps?

Síðan er hitt, þetta verður síðan á kostnað annarra. Það er líka verulega ámælisvert og nokkuð sem við verðum að skoða vel í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd ef þetta mál heldur áfram í þinginu núna í vor, ef það er virkilega meiningin að reyna að þröngva því hér í gegn.

Það er enn annað sem þarf að velta fyrir sér, til hvers erum við að fara í þessar breytingar núna? Hver er hvatinn fyrir breytingunum? Það er líka samdóma álit þeirra sem ég nefndi áðan, þ.e. allra sjómannasamtakanna, að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé það besta sem völ er á. Í skoðun okkar framsóknarmanna fyrir síðasta flokksþing vorum við með vinnu í gangi í heilt ár þar sem við veltum þessu sjávarútvegskerfi fyrir okkur. Þá varð sama niðurstaða hjá okkur líka, að þetta kerfi væri það besta sem völ væri á, sérstaklega með tilliti til tveggja þátta. Það er yfirburðakerfi hvað varðar hin hagrænu áhrif. Fyrir þá sem ekki muna væri rétt að rifja upp hvernig ástandið var hér á áttunda og níunda áratug síðustu aldar með sjávarútveginn. Það er augljóst að síðan þetta kerfi var sett á hefur hagstjórnartæki þess gert það að verkum að hér er rekinn hinn öflugasti sjávarútvegur, kannski sá öflugasti í heimi þó að varast skyldi hæsta stig þess lýsingarorðs. Einnig hefur verið viðurkennt varðandi veiðistjórnina að þetta er yfirburðakerfi enda eru ýmsir að skoða það, þar á meðal er víst Evrópusambandið sjálft að velta fyrir sér hvort tekið skuli upp hið íslenska kerfi. Hins vegar hafa allir verið sammála um að inni í kerfinu er ákveðið byggðalegt ójafnræði, óréttlæti sem þurfi að reyna að ráða bót á. Það er verkefni sem ekki er auðvelt en ég held að leiðin til þeirrar úrlausnar sé ekki sú sem hér er farin. Það sem mér finnst skorta, bæði í þetta minna frumvarp en ekki síður hið stóra, er að tilgangurinn með þeim breytingum sem við ætlum að gera á sjávarútvegskerfinu hlýtur að vera að það skili enn meiri arði til þjóðarinnar, að það skili þeim sem starfa sjávarútvegsgreininni bestu rekstrarskilyrðum sem völ er á og treysti þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, svo ég vitni nú í svokallaða samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá upphafi kjörtímabils.

Þar stóð líka, með leyfi forseta:

„Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er.“

Engu að síður er það samdóma álit allra aðila í sjávarútvegi að það sé ekki verið að gera það, því markmiði verði ekki náð, það sé ekki sett hér efst á listann. Hér er hins vegar gert ýmislegt til að veikja kerfið, ýmislegt sem gerir það að verkum að óvissa eykst, líkur á því að hér komist á blómleg fjárfestingarstefna í sjávarútvegi eru nánast úr sögunni og annað í þeim dúr. Ef við förum að ræða stærra frumvarpið, sem ég ætla að sleppa núna, er ýmsum spurningum þar ósvarað. En það er óhjákvæmilegt að ræða það að minnsta kosti hugmyndafræðilega þegar maður skoðar minna frumvarpið um leið.

Ef við víkjum aðeins að einstökum greinum þessa frumvarps er í 1. gr. fjallað um strandveiðarnar. Þar virðist tilgangurinn vera að búa til nýjan flokk strandveiða, þ.e. með skipum undir þremur brúttótonnum. Það er rökstutt með þeim hætti að það sé nauðsynlegt að bæta starfsskilyrði þessara smærri báta. Þá hlýtur að vakna spurningin: Hvað með þá stærri? Þarf ekki að tryggja rekstrarskilyrði þeirra báta?

Förum enn lengra og sýnum fram á rökleysuna í þessari grein. Þegar það á að fara að taka jaðartonnin af þeim sem eru í greininni núna, þeir hafa nægilega getu til að veiða og vinna meira, er þá ekki nauðsynlegt að styrkja rekstrarstöðu þeirra frekar þegar á að taka þau tonn af og færa yfir í þetta kerfi? Væri ekki gáfulegra að úthluta kvóta til þeirra sem eru í greininni í dag? Ætlum við annars virkilega að horfa upp á það á næstu vikum, ef þetta verður að lögum, að skip þeirra sem starfa 100% í atvinnugreininni í dag verði bundin við bryggju, þeir sjómenn og þær vinnslur fari í sumarfrí og hefji síðan störf 1. september, en þeir sem fara inn í strandveiðar, í hobbí- og sumarfrísvinnu og alls kyns slíkt, eigi að vera í atvinnunni? Á að senda þá sem starfa 100% í atvinnugreininni á ársgrundvelli í sumarfrí allt of fljótt? Það er augljóst að við verðum að fjalla miklu nánar um þessa grein.

Það er annað sem er merkilegt í þessu minna frumvarpi, orðið nýsköpun kemur aldrei við sögu. Er það ekki það sem við ætlum að gera í sambandi við uppbyggingu á sjávarútvegi? Ætlum við ekki að fara að vinna betur vannýttar tegundir og jafnvel ónýttar tegundir? Ætlum við ekki að reyna að auka úrvinnslu þess hráefnis sem við nú þegar drögum úr sjó og fleira í þeim dúr? Ekki orð, ekki eitt orð. Ég sá orðið nýsköpun ekki í eitt skipti við þessa yfirferð. Það er því nokkuð augljóst að hér stendur ekki til að stækka kökuna að neinu marki og það er ekki markmiðið að bæta rekstrarstöðu greinarinnar.

Ef við förum síðan til að mynda í 2. gr. eru menn þar að velta fyrir sér að taka aflaheimildir af fleiri tegundum í tilfærsluna en þorski, ufsa, ýsu og steinbít eins og er í dag. Það getur út af fyrir sig verið réttlætismál en það er ekki sama hvernig það er gert. Í stefnu okkar framsóknarmanna er lagt til að þær tilfærslur sem í dag eru um 3,5% af heildarþorskígildi og mjög mismunandi eftir tegundum, allt frá nokkrum prósentum upp 10–11%, verði samhliða stofnstærðaraukningu einstakra tegunda, samhliða því að potturinn stækki, að heildarpotturinn stækki á næstu árum, þannig að í tegundum sem engin tilfærsla verði á stefni hann í að verða 3–5% en af öðrum stofnum allt að 10%. Þetta byggist á því að stærri kaka verði til skiptanna og það verði jákvæð reynsla af því að færa þessar aflaheimildir til þessa potts tvö eða annarra potta.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi að orðið ráðherra stæði 32 í þessu frumvarpi upp á sjö, átta greinar, og það er einmitt í 3. gr. sem orðið ráðherra kemur níu sinnum fyrir. Þar fyrir utan er ráðuneyti sjávarútvegsráðherrans nefnt fjórum sinnum og sveitarstjórnir sex sinnum þannig að 3. gr. fjallar um það með hvaða hætti opinberir aðilar eiga að valsa um þessa atvinnugrein og ráðskast með hana með einum eða öðrum hætti. Er það það sem þarf, er það eitt af því sem tryggir og bætir rekstrarstöðu og gerir greinina stöðugri til framtíðar og skilar meiri arði til þjóðarinnar? Er leiðin í byggðajöfnuninni að setja svona mikið vald annars vegar á ráðherra og svo hugsanlega á sveitarstjórnir ef þær velja sér að fara þá leið? Ég býst við að margar sveitarstjórnir muni hugsa sig vel um áður en þær bergja á þeim beiska kaleik. Eftir sem áður situr ráðherra með það vald.

Í þessari grein er farin sú leið að það er sett 100% framsalsheimild þar sem annars staðar er bannað. Það er sett á viðkomandi sveitarfélag þannig að sveitarfélagið fái númer eins og eitt skip með 100% framsalsheimild. Auðvitað hljómar þetta dálítið sérkennilega en það eru svo sem fordæmi fyrir þessu.

Við framsóknarmenn ákváðum að fara dálítið aðra leið hvað varðar byggðajöfnun. Ég held að það væri áhugavert að skoða það í stað þessarar leiðar þar sem ráðherra og alls kyns aðrir opinberir aðilar munu fara talsvert með þetta vald eða að öllu leyti, og þá væri hægt að hafa þetta miklu einfaldara með því að úthluta þessum byggðakvóta á fiskvinnslurnar. Hver fiskvinnsla er með númer hvort eð er þannig að í hverju byggðarlagi gæti fiskvinnslan fengið þennan byggðakvóta og hún mundi síðan semja við útgerðirnar um veiðarnar eftir því sem markaðurinn kallaði eftir og það væri búið að selja vöruna. Þannig gætum við kannski hámarkað verðið frekar og fengið aukinn arð en þannig munum við líka tryggja að allur sá kvóti fari til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi en ekki neitt annað. Þetta tryggir atvinnuna í byggðinni miklu frekar.

Auðvitað verður þetta ekki án undanþágu, þetta er ekki alls staðar hægt en þetta væri meginstefnan. Þetta væri til þess fallið að þetta væri einfaldara kerfi og án pólitískra íhlutana.

Nú sé ég að það gengur nokkuð skarpt á tíma minn og mikið enn órætt í þessu frumvarpi. Hér hefur aðeins verið fjallað um veiðigjaldið og í því sambandi langar mig að nefna að í stað þeirrar leiðar sem ráðherrann hefur hér farið og ýmsir eru að setja hornin í leggjum við framsóknarmenn til að það verði farin leið sem í sjálfu sér er ekki hugmyndafræðilega neitt ólík, þ.e. að auðlindagjaldið eða veiðigjaldið renni að hluta til beint til greinarinnar sjálfrar í nýsköpun. Rannsóknir og markaðsstarf skipta gríðarlegu máli. Hluti gæti farið til landshlutanna, hugsanlega til atvinnuþróunarfélaganna, það var ekki útfært nákvæmlega, og síðan hluti til ríkisins. Þetta væri eðlilegri leið en að það rynni (Forseti hringir.) beint til ríkisins þar sem það yrði þá viðbótarlandsbyggðarskattur.

Ég verð víst að láta þetta duga í bili en bið forseta að setja mig á listann aftur.