139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að draga úr því að það er mikilvægt og verðmætt að hafa líf í sem flestum höfnum landsins. En auðvitað þurfum við að velta því fyrir okkur og vera 100% á því að við séum ekki að taka áhættu í einhverju stóru með því að fara út fyrir þessa langtímastefnumörkun um aflareglu.

Varðandi verð og eftirspurn eftir fiski er það ábyggilega rétt að það er stöðug eftirspurn eftir fiski. Er það ekki líka rétt að verðið hrynji einfaldlega þegar strandveiðibátarnir koma að landi þá daga sem þeir fara í sóknarmarkið og moka því inn í ólympískum veiðum? Er það skynsamlegasta nýtingin á þessari auðlind að verðið (Gripið fram í.) hrynji niður um 1/3? Það getur ekki verið skynsamlegasta leiðin.

Ef það var borð fyrir báru að auka þorskkvótann fyrr á þessu ári hefði auðvitað verið skynsamlegt að gera það miklu fyrr því að okkur veitir ekki af þeim tekjum inn í þjóðarbúið.