139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hann staðfestir þær áhyggjur mínar að ekki sé tími til að vinna þetta mál með þeim hætti sem æskilegt er, sérstaklega kannski í ljósi þess að við fáum margsinnis inn í þingið aftur frumvörp þar sem meðferð þeirra hefur verið ábótavant.

Þessa dagana erum við einmitt að fjalla um lög sem snúa að umboðsmanni skuldara. Í umfjölluninni koma fram áhyggjur af því að lagastoðin undir því frumvarpi sé ekki nógu sterk, þ.e. að umboðsmaður skuldara hafi ekki lagalegan grundvöll til að sækja það fjármagn sem þarf til að reka það batterí. Það munar ekki nema um 500 milljónum fyrir ríkissjóð. Ég fagna því að hv. þingmaður staðfestir þær áhyggjur mínar að sá skammi tími sem eftir er muni ekki tryggja nægilega faglega og vandaða meðferð á þessu máli. Þó að þetta sé alltaf kallað litla frumvarpið í þessum meðförum eru gríðarlega miklar breytingar í því og ég hefði frekar valið að kalla það styttra frumvarpið. Í því eru margar og miklar breytingar sem hafa mikla þýðingu og þess vegna er mjög mikilvægt að við vöndum vinnubrögðin. Ég fagna því að hv. þingmaður er sama sinnis þar sem hann á sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og mun væntanlega koma þessu á framfæri þar.