139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki sagt að ég sé sérstaklega glaður yfir því að við séum sammála um að þetta sé allt of stuttur tími. Það er auðvitað mjög ámælisvert að svo óvandað frumvarp skuli lagt fram sem hefur þetta mikil áhrif á eina atvinnugrein og ætlast til þess að þingið vinni það af einhverri skynsemi á sjö dögum.

Af því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson minntist á að við þyrftum að vanda vinnu okkar betur og stundum kæmi í ljós að það vantaði lagastoðir og annað vil ég minna á að við þingmenn Framsóknarflokksins höfum lagt hér til, og 1. flutningsmaður er Vigdís Hauksdóttir, að þingið komi sér upp lagaskrifstofu þar sem farið sé yfir þessi mál með þeim hætti að við þyrftum ekki að deila svona mikið um hvort mál standist stjórnarskrá. Þá yrði kannski tryggt að svona mál hefðu lagastoð.

Þar fyrir utan hefur það verið skoðun mín býsna lengi að við kappkostum stundum að koma hér allt of mörgum málum út en ættum að vanda okkur við vinnuna, (Forseti hringir.) og það þótt það yrði einum eða tvennum lögum færra.