139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að venju hófstillta ræðu um þetta mikilvæga mál. Það vakti samt athygli mína í upphafi máls hv. þingmanns að hann spurði hver hvatinn væri að þeim breytingum sem verið væri að boða og hver ástæðan væri og að Framsóknarflokkurinn sæi í sjálfu sér enga ástæðu til breytinga. Ef ég man rétt þá sagði hann að einhverjir teldu að kerfið sem við byggjum við væri eitt af bestu kerfum í heimi þó að hann varaðist að taka hæsta stigið sem fullyrðingu. En almennt taldi hann ástæðulaust að fara í miklar breytingar.

Er það afstaða þingmannsins og þá Framsóknarflokksins að ástæðulaust sé að gera nokkrar breytingar á því stjórnkerfi sem við erum með í dag? Á hverju byggir hv. þingmaður afstöðu sína? Mér sýnist hún vera í hrópandi andstöðu við niðurstöðu Framsóknarflokksins á nýafstöðnu flokksþingi þar sem lagðar voru fram og samþykktar ítarlegar og að mörgu leyti ágætar tillögur í sjávarútvegsmálum.