139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka talsmanni Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum, hv. þm. Helga Hjörvar, fyrir ræðuna þó að mér hafi fundist hún mjög einkennandi fyrir málflutning Samfylkingarinnar þegar kemur að sjávarútvegsmálum. Það eru upphrópanir og frasar sem Samfylkingin notar gjarnan þegar rætt er um sjávarútvegsmálin. Þjóðin vill þetta og þjóðin vill þetta, segir Samfylkingin. Um leið og komin var fram tillaga frá hinni svokölluðu sáttanefnd, tillaga sem byggði á því að hægt var að ná sátt um sjávarútvegsmálin, fór Samfylkingin af stað til að eyðileggja þá sátt. Hagsmunir Samfylkingarinnar eru að hafa ósætti um sjávarútveginn. Það var búið að leggja grunn að því að færa skýrt inn í stjórnarskrá að auðlindirnar væru eign þjóðarinnar, að greitt yrði afnotagjald og gerðir samningar. Allt þetta hugnast ekki Samfylkingunni. Þess vegna er farið af stað með frasana, um að þjóðin vilji þetta og þjóðin vilji hitt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann úr því að hann er sérfræðingur um sjávarútveginn hjá Samfylkingunni: Er framtíðarsýn hans þannig (Forseti hringir.) að íslenskur sjávarútvegur verði mátaður inn í Evrópusambandið og verði ríkisstyrktur?