139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekkert við það að athuga að við förum eins með allar auðlindir hvar svo sem þær eru á landinu, í landgrunninu eða í sjónum. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt mál. Ég held að það sé mikið fagnaðarefni hversu gríðarlegur hagnaður hefur verið af sjávarútveginum eftir hrun. Við vitum auðvitað öll af hverju það stafar, það stafar af því að krónan er mjög veik og það var auðvitað allt önnur afkoma hér þegar hún var sterkari. Ég held að eitt af þeim mikilvægu markmiðum sem við þurfum að ná við endurskoðunina á kerfinu sé að draga úr þessum miklu sveiflum sem ég held að sé bæði þeim landshlutum sem hv. þingmaður er að reyna að ota hverjum gegn öðrum og þjóðinni allri mjög mikilvægt.