139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt 32. gr. stærra frumvarpsins, eða lengra frumvarpsins, fellur fyrra frumvarpið úr gildi. Hv. þingmaður verður að samþykkja annað hvort, hann getur ekki samþykkt bæði því að annað fellir hitt úr gildi. Ég ætla bara að undirstrika þetta. Ég vona að það séu ekki fleiri hv. þingmenn haldnir þessum misskilningi. (JónG: Þau eru ekki búin að lesa þetta einu sinni sjálf.)

Hv. þingmaður ræddi ekki um ríki og almenning. Ég vil gjarnan fá skýringu á því hvort enginn munur sé þar á. Ég hef nefnilega lagt fram frumvarp um að dreifa kvótanum á alla þjóðina og koma með alvörumarkað en ekki ríkisvæðingu eins og bæði þessi frumvörp ganga út á. Þau ganga út á það að ríkið taki allan kvótann og svo eiga ágætir þingmenn og stjórnmálamenn að dreifa þessu út aftur til útgerðarmanna. Við erum að tala hér um ríkisvæðingu en ekki einhverja markaðsvæðingu.