139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi hvernig strandveiðum er skipt upp í dag get ég sagt að ég væri alveg tilbúin að endurskoða það fyrirkomulag og hef haft mínar hugmyndir í þeim efnum. Ég tel rétt að ég kynni þær við tækifæri í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég tel að hægt sé að hafa meiri jöfnuð þar. Með því að skipta bátaflokkunum upp í báta undir þrem tonnum og stærri er verið að mæta því sjónarmiði að sumu leyti.

Ég held að þó að okkur hv. þingmanni þyki ekki mjög eðlileg þróun að þeir sem hafi selt úr greininni fari beint í strandveiðar með þessum hætti þá vitum við bæði jafn vel að við getum ekki heft atvinnufrelsi manna og bannað ákveðnum hópi þjóðfélagsþegna að stunda einhverja atvinnugrein. Við viljum ekki búa í þannig ríki, er það?