139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Athyglisvert hefur verið að hlusta á ræðu hv. þingmanns og andsvörin. Ég er í rauninni enn engu nær hvort hv. þingmaður er sammála því og sátt við að færa atvinnuréttindi frá einu byggðarlagi til annars. Það felst í málflutningi hv. þingmanns að réttlætanlegt sé að taka frá byggðarlagi sem er með fiskvinnslu og færa yfir til byggðarlags sem hv. þingmaður skilgreinir sem byggðarlag sem á í vanda.

Er eðlilegt að byggðarlag sem er með útgerð í dag og hv. þingmaður sagði að ætti ekki að fá til sín aukningu á aflaheimildum, þegar verið er að undirbúa að leggja þar t.d. einum ísfisktogara? Þar verður sveitarfélagið af 60–80 millj. kr. í tekjur, áhöfninni verður væntanlega sagt upp og einhver verður minnkunin hjá vinnslu í landi. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að færa atvinnuna frá þessu fyrirtæki eða réttara sagt þessu fólki (Forseti hringir.) til einhverja annarra?