139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég er nú enn meira hugsi eftir það vegna þess að í svari hæstv. ráðherra kemur fram að það séu einungis 30–40 bátar sem eru í strandveiðum í dag (Gripið fram í: Nú þegar.) nú þegar, já, og það séu til um 70–80 bátar á landinu. Ég hygg þá að þeir bátar séu mest í þessari sjóstangaveiði fyrir vestan. Þá velti ég fyrir mér hvernig standi á því að menn eru að setja nýtt ákvæði í lögin um að breyta strandveiðikerfinu þannig að verið er að búa til sérpott fyrir 30–40 báta af um 700, 730 voru þeir í fyrra. Það er enn meira umhugsunarefni. Ég sé enga ástæðu til þess.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra af því að hann kemur aftur í andsvar: Finnst honum ekki að menn þurfi að skoða þetta mjög vel, t.d. gagnvart vélarafli og þar fram eftir götunum? Vegna þess að það sem mun gerast í framhaldi af þessu er að þarna kemur enn frekari glufa og menn munu fara að framleiða báta af þessari stærð inn í kerfið.