139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar síðustu spurningu hv. þingmanns um verðið kom mjög skýrt fram hjá Samtökum fiskvinnslustöðva, sem komu á þingflokksfund hjá okkur í Sjálfstæðisflokknum, að verðfallið sem verður strax í upphafi þegar strandveiðibátarnir fara af stað er töluvert. Það má ekki skilja það svo að þeir ágætu menn sem stunda þær veiðar vilji ekki gera vel, en þeir hafa hreinlega ekki aðstæður til þess, sérstaklega ef menn ætla að fara að búa til nýjan pott sem er með báta undir þremur brúttótonnum en ekki brúttólestum, sem eru mjög litlir bátar, það gefur alveg augaleið. Þeir hjá samtökunum sögðu meira að segja á þeim fundi að það hefði haft varanlegar afleiðingar inn í haustið, þ.e. þegar búið var að senda inn fisk sem stóðst ekki væntingar og kröfur. Þetta er því eitt af því sem við verðum að skoða.

Mér fannst það reyndar mjög athyglisvert sem kom fram í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um að skipta þessu hugsanlega út og menn fengju að róa á þann hátt að stýra þessu af einhverju viti heldur en gera þetta með þessum hætti og því kappi og þeirri áhættu af slysum sem ég hef miklar áhyggjur af, enda hef ég verið áhugamaður um slysavarnir sjómanna í mjög langan tíma.