139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo það sé alveg á hreinu þá er ofboðslega erfitt að svara þessu afgerandi. Eins og hv. þingmaður veit er þetta í raun og veru ákveðinn texti sem er skrifaður, síðan skal ráðherra setja reglugerð um framhaldið. Það er því mjög erfitt að mynda sér skoðun á einstaka atriðum frumvarpsins.

Ég fór yfir örfáa hluti og maður hefði þurft að hafa a.m.k. einn klukkutíma til þess að fara yfir þá alla. Hv. þingmaður kom inn á eitt atriði sem ég hef dálitlar áhyggjur af en skil samt hvað er að gerast. Menn segja: Við ætlum að breyta tegundatilfærslunni með því að hafa að hámarki 30% í viðkomandi tegund hjá viðkomandi útgerð. Við þekkjum það af okkar reynslu að menn hafa verið að nota það með þeim hætti að sumar tegundir hafa verið notaðar kannski upp í 60, 70, 80% í tegundatilfærslu vegna þess að enginn vill ná í tegundirnar sem hefur yfir þeim að ráða.

Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt fyrir hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að skoða þetta líka út frá því ef t.d. útgerð sem á mjög litlar aflaheimildir, við skulum segja að einhver eigi kannski 100 kíló af viðkomandi tegund þá er tegundatilfærslan ekki nema 30 kíló. Þetta er eitthvað sem menn verða að skoða hvort setja mætti þá hugsanlega varnagla við hámarkstonnafjölda (Forseti hringir.) eða eitthvað svoleiðis, þannig að þetta virki ekki. En ég skil hugmyndafræðina á bak við og hvað verið er að reyna að gera.