139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt sem hv. þingmaður kom inn á og ég fór ekki yfir í minni stuttu ræðu vegna þess að ég hafði ekki tíma til þess, var svokölluð breyting á þessum VS-afla. Ég er alveg sammála því að það þurfi að gera með þeim hætti að ekki sé hægt að hafa það þannig að útgerð geti í raun og veru fiskað mjög mikinn afla yfir alla vertíðina og svo bara í restina gert eingöngu út á það því það er stílbrot við hugsunina á bak við þetta og markmiðið með því sem verið er að gera.

Hins vegar vil ég segja það sem hv. þingmaður sagði um umræðugrundvöllinn. Hann hefur alla tíð verið fyrir hendi, að menn geti rætt saman um hlutina. Og svo er annað, mér finnst mjög óeðlilegt að þegar sett er inn í VS-aflann sem fer í svokallaðan Verkefnasjóð sjávarútvegsins, sem skiptist síðan í tvær deildir, annars vegar rannsóknasjóðinn og almennu deildina, og hv. þingmaður veit af þeirri gagnrýni minni þar að lútandi, að það sé ákveðin stofnun til að mynda Hafrannsóknastofnun sem hefur bara getað tekið — eins og t.d. árið 2009 þá tók hún 14,4% umfram. Hún tekur 300 milljónir án þess að þingið hafi eitthvað um það að segja og síðan er það samþykkt hér í lokafjárlögum. Þetta er hlutur sem við verðum að skoða alveg upp á nýtt, (Forseti hringir.) bæði hvernig úthlutað er út úr honum og hvernig er greitt inn í hann.