139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði kannski átt að sleppa því að koma upp og enda andsvarið við hæstv. ráðherra á því að við værum sammála. Það kann að vera að við verðum það í fleiri atriðum þegar við ræðum betur sjávarútvegsmál.

Það kann vel að vera að þeir sem hafa gagnrýnt frumvörpin geri það frá ólíkum sjónarmiðum og sjónarhornum. En ég held að niðurstaðan sé hins vegar sú sama hjá þeim öllum, að þetta sé ófært eins og það lítur út, það gangi einfaldlega ekki upp.

Það er líka alveg ljóst að gagnrýnin snýr ekki síður að því að þessir aðilar skuli ekki hafa verið hafðir með eða að ekki hafi áfram verið unnið á þeim nótum sem sáttanefndin fjallaði um og vann að þeim tillögum sem hún skilaði. Þessir aðilar störfuðu með nefndinni og hefðu eflaust haft mikinn áhuga á að halda áfram því góða starfi sem þar var unnið.

Ég veit ekki betur, frú forseti, en að fulltrúar verkalýðsins hafi lýst yfir efasemdum um þessi frumvörp.