139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:35]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans áðan sem var ágæt og hófstillt að hætti okkar norðanmanna, að venju. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann væri í stórum dráttum sammála því frumvarpi sem hér er lagt fram, þ.e. hann ræddi um 1. gr. frumvarpsins, hann fór reyndar mjög skipulega yfir frumvarpið, á þakkir skildar fyrir það, og gerði athugasemd við útfærslu á 1. gr., þ.e. að stofna nýjan bátaflokk, en gerir í sjálfu sér ekki athugasemdir við prinsippið, framlag pottanna sem er 2. gr. frumvarpsins. Hv. þingmaður á ásamt tveim öðrum þingmönnum hér, hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og Einari Kristni Guðfinnssyni, hugmyndina. Þeir lögðu fram frumvarp þess efnis á þinginu og hv. þingmaður tók undir þá grein.

Varðandi 3. gr. skildist mér á hv. þingmanni að hann væri í sjálfu sér ekki andsnúinn hugmyndinni en hún væri útfærsluatriði. Sömuleiðis varðandi 4. gr., um tilfærslur á milli tegunda, enn fremur veiðigjaldið sem hann taldi að hefði hækkað of mikið. Þá get ég spurt á móti: Hvað telur hv. þingmaður að megi hækka gjaldið mikið?

Mér fannst hv. þingmaður vera pínu „svag“ fyrir ráðstöfun (Forseti hringir.) veiðigjaldsins samkvæmt þeim hugmyndum sem þar koma fram. Sömuleiðis (Forseti hringir.) gat ég ekki skilið annað á hv. þingmanni en að honum fyndist eitt og annað nýtilegt (Forseti hringir.) í 7. gr. frumvarpsins. Skil ég hv. þingmann rétt? (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)