139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:41]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, það er fáránlegt að hv. stjórnarliðar sem greiddu atkvæði með kvöldfundi og telja brýnt að þetta mál sé tekið til umræðu og gaumgæfilega rætt skuli ekki vera við umræðuna. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir að hafa verið svo duglegur í andsvörum sem hann hefur verið. Ég hef reyndar ekki orðið vör við að hann hafi sett sig á mælendaskrá en vona að hann geri það hið allra fyrsta svo við getum heyrt sjónarmið hans um þetta af því að hann er svo duglegur að túlka þá ræðumenn sem hér hafa komið upp.

Meginatriðið, virðulegi forseti, er að ég tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni. Eru stjórnarliðar hér í húsinu? Eru menn að fylgjast með þessari umræðu? Eða er það svo að þegar menn greiða atkvæði með kvöldfundi sé það verkefni stjórnarandstöðunnar að sitja fram eftir kvöldi og inn í nóttina til að ræða þessi brýnu mál? Ég held að þetta mál sé það langmikilvægasta sem hefur rekið á fjörur þingsins í langan tíma. Til þess að eiga viðræður við fólk verður fólkið að vera á staðnum.