139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ítreka fyrirspurn mína til frú forseta um það hvort stjórnarliðar og þeir sem samþykktu að hér yrði kvöldfundur séu ekki örugglega í húsinu að hlýða á umræðurnar. Það er með ólíkindum að þeir aðilar sem samþykktu kvöldfund skuli ætla að sitja heima. Já, það væri hneyksli gagnvart undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það er einfaldlega ekki boðlegt að alþingismenn samþykki að menn tali hér út í nóttina og þeir hinir sömu sem hafa krafist kvöldfundar skuli ekki vera við umræðuna. Ég vona að svo fari, frú forseti.

Ég minni líka á að við í stjórnarminnihlutanum á Alþingi samþykktum að hefja alla þingfundi hálfellefu á morgnana. Við sýndum mikil liðlegheit þegar kom að því. Það er lágmarkið að þeir aðilar sem sögðu að hér ætti að fara fram kvöldfundur láti sjá sig og, síðast en ekki síst, setji sig á mælendaskrá. Ég ætla að minna á það að af 20 (Forseti hringir.) eða 21 (Forseti hringir.) þingmanni er einungis einn stjórnarliði sem ætlar að fjalla um þetta mikilvæga mál. Þvílík umræða.