139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér var ekkert skemmt yfir ræðu hv. þm. Helga Hjörvars. Mér fannst þingmaðurinn tala niður til allra þeirra sem starfa í sjávarútvegi með því að segja að þetta sé eitthvert smámál — að sjávarútvegsmálin eigi bara að ræða hér fram á nótt, menn eigi bara að tala sig hása, eða hvernig sem hv. þingmaður orðaði það, að stjórnarandstaðan eigi bara að klára umræðuna. Þetta er lítilsvirðing, frú forseti, við allt það fólk sem starfar beint eða óbeint í sjávarútvegi, að láta í veðri vaka að þetta mál skipti engu máli. Það kann vel að vera að þingmaðurinn vilji frekar ræða það áhugamál sitt að flakka með gæludýr á milli landa, að það sé stærra mál en þetta.

Ég vil segja við hv. þingmann að það furðulega mál á ekkert heima hér í þinginu. Það er mjög sérstakt að leggja slíkt mál fram. En ég ætla ekki að blanda því saman við sjávarútvegsmálin, af því að um er að ræða hunda og hamstra og eitthvað slíkt. Ég vil segja við hv. þingmann, frú forseti: Það er til skammar að tala niður til þess fólks sem starfar í sjávarútveginum (Forseti hringir.) með því að segja að þetta sé smámál.