139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein. Það merkir að sjávarútvegurinn getur staðið og stendur einn og sér. Hann er atvinnugrein sem skapar önnur störf. Hann er atvinnugrein sem laðar að sér aðra atvinnustarfsemi. Hann er eins og olíuiðnaður, olíuborpallar, og slíkar atvinnugreinar. Það er því gríðarlega mikilvægt, og ég tala nú ekki um á jafnerfiðum tímum og við erum nú að fara í gegnum, að um þessa grein sé sátt. Það er ekki ofsögum sagt að þeir sem standa að baki þessari ósátt og þeim óróleika sem er í kringum þessi mál beri gríðarlega mikla ábyrgð á erfiðleikunum í samfélaginu og hversu langvarandi þeir verða.

Ég fundaði með fulltrúum Samtaka iðnaðarins fyrir ekki svo löngu. Þar var verið að reyna að fara yfir það sem hefði orðið ef menn hefðu ákveðið að halda áfram með sáttaleiðina, reynt áfram að útfæra hana. Upp hefðu komið ágreiningsmál sem hefði þurft að leysa og ekki hefðu allir staðið 100% sáttir upp frá borðinu eins og gengur og gerist í samningaviðræðum. En ef menn hefðu haldið áfram og gefið út að þeir ætluðu að ná breiðri sátt á þessum vettvangi hefði það haft í för með sér að á annað þúsund störf hefðu skapast á mjög skömmum tíma í þjónustugreinum við sjávarútveg.

Í viðtali við forstjóra Slippstöðvarinnar á Akureyri kom fram að það fyrirtæki lifir eingöngu á erlendum verkefnum sem er mjög óvenjulegt miðað við þennan tíma. Í jólafríinu skiluðu útgerðirnar sér til dæmis ekki í viðhaldsvinnu þar eins og eðlilegt hefði verið.

Ég vil líka vitna í viðtal við forstjóra 3X-Stál á Ísafirði sem sagðist vera með 40 manns í vinnu nánast eingöngu að vinna fyrir erlenda aðila. Ef allt væri eðlilegt í íslenskum sjávarútvegi þá væri hann að minnsta kosti með 80–100 manns í vinnu. Það munar um minna á Vestfjörðum — ég beini þeim orðum til hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur.