139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu. Það kom fram hjá formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrr í dag að hún teldi að Ísland, landið, þjóðin, gæti ekki verið án þeirrar vannýttu fjárfestingar sem væri í sjávarbyggðum hringinn í kringum landið.

Nú er ljóst að hugmyndir stjórnarliða ganga út á það að auka kvóta í strandveiðum og byggðatengdum verkefnum, sem á þá væntanlega að fullnýta hina vannýttu fjárfestingu, en taka það frá atvinnugrein sem getur vissulega veitt meira og unnið meira. Hvað segir hv. þingmaður um jafnræðið þarna á milli, hvort þau tæki og tól, sem eru í atvinnugreininni í dag og væri hægt að nýta betur, geta ekki líka talist vannýtt auðlind.

Ég nota orðið jafnræði vegna þess að það hefur líka komið til tals hjá nokkrum stjórnarliðum að þær hugmyndir að útdeila veiðigjaldi með öðrum hætti til landshlutanna, til atvinnuuppbyggingar í þeim byggðum, sé brot á jafnræðisreglu en ég á svolítið erfitt með að átta mig á því. Ég vildi líka heyra álit þingmannsins á því að hringinn í kringum landið er fólk sem nýtur ekki sömu þjónustu og aðrir þó að það borgi sömu skatta. Mig langar að heyra álit þingmannsins á því sjónarmiði sem hér hefur verið reifað, meðal annars af hv. þm. Helga Hjörvar, að þetta væri fullkomið jafnræðisbrot og jafnvel brot á stjórnarskrá. Ég hef heyrt minna talað um það jafnræði sem menn þyrftu að njóta gagnvart þjónustunni þar sem allir ættu að sitja við sama borð og langar að heyra álit þingmannsins á þessu tvennu.