139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:30]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Rétt um 18.30 ræddum við nokkrir þingmenn undir þessum lið fjarveru ráðherra. Þó að ég kunni hæstv. utanríkisráðherra bestu þakkir fyrir að vera í þingsal sitjandi undir þessari mikilvægu umræðu hafa aðrir stjórnarliðar ekki gert það og hvað þá hæstv. ráðherrar í sama mæli og hæstv. utanríkisráðherra.

Málið snýst ekki um utanríkisráðherra heldur snýst það um fjarveru hæstv. forsætisráðherra sem tjáir sig mjög fjálglega á öllum fundum sem hún getur um sjávarútveginn en kemur ekki hingað í þingið, hvað þá hæstv. fjármálaráðherra sem hefur heimilað fjárlagaskrifstofunni og lagt blessun sína yfir að leggja fram þetta frumvarp þrátt fyrir að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hafi varað eindregið við því að frumvarpið gæti stangast á við stjórnarskrá.

Þess vegna spyr ég hæstv. forseta hvort hæstv. forseti hafi nýtt matartímann til að kanna það hvort þessir hæstv. ráðherrar geti verið viðstaddir umræðuna en ég veit að þeir hafa verið eitthvað í húsi núna undir kvöld.