139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil biðja hv. þm. Birki Jón Jónsson að taka það ekki persónulega þó að ekki séu fleiri þingmenn í salnum þegar hann ætlar að halda sína ræðu. Ekki bað ég um kvöldfund en ég sit hér samt og það er rangt hjá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur að þetta mál varði ekki utanríkisráðherra. Hv. þingmaður hélt miklar ræður um daginn þar sem hún tengdi nákvæmlega þessi frumvörp mjög sterklega við veigamikinn þátt utanríkisstefnunnar eins og hún er rekin af mér.

Frú forseti. Það er rétt að beðið var um að hæstv. forsætisráðherra kæmi til umræðunnar. Hún reyndar kom (Gripið fram í.) já, að vísu, vegna þess að framkvæmdarvaldið gerði sér ekki grein fyrir því að þingmenn nytu þess lúxus og munaðar að fá heila klukkustund í kvöldmat á kvöldi sem þessu. (Gripið fram í.) En því miður er hæstv. forsætisráðherra vant við látin eins og sakir standa. Hún fól mér að vera hér í sinn stað og hér er ég og get ekki annað eins og Marteinn Lúther sagði.

Ég vil biðja hv. þingmenn að virða það að hér er framkvæmdarvaldið, bæði ráðherra málsins og aðrir. Það er ekki alveg sanngjarnt að krefjast þess að forsætisráðherra sé við þessa umræðu nákvæmlega núna.