139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram vegna fjarveru hæstv. forsætisráðherra. Það væri auðvitað eðlilegt að hún sýndi þinginu þá virðingu að vera hér og taka þátt í umræðunni með okkur, ekki síst í ljósi þeirra ummæla sem hún hefur viðhaft í fjölmiðlum og á fundum þar sem ekki hefur verið tækifæri fyrir okkur til að eiga við hana orðastað.

En mér hefur verið boðið upp á lakari býti áður en þau að fá hæstv. utanríkisráðherra í stað hæstv. forsætisráðherra. Það eru í sjálfu sér ekki svo slæm býti og ég mundi þá vilja hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að setjast í stól hæstv. forsætisráðherra. Það færi mun betur þannig.

Að gamninu slepptu, virðulegi forseti, vil ég segja að hér byrjuðu margir þingmenn starfsdag sinn kl. 8 í morgun á nefndarfundum og við ætlum að funda eitthvað fram eftir kvöldi. Ég hvet hæstv. forseta til að horfa til þess sem hefur verið talað um, að gera þetta að heldur vænni vinnustað en hann hefur oft á tíðum verið, og ástæða er til að fara að stytta í (Forseti hringir.) þessum kvöldfundi. Það liggur fyrir að boðaðir eru nefndarfundir kl. 8 í fyrramálið og ef á að vera hér fram undir miðnætti þá er það orðin 16 tíma vakt hjá (Forseti hringir.) þeim sem sinna störfum sínum hér og það er ekki bjóðandi.