139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að snjallar ræður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hól hans í garð hæstv. utanríkisráðherra breyta ekki þeirri skoðun okkar sjálfstæðismanna og stjórnarandstöðunnar að það er algert reginhneyksli að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra séu ekki við umræðuna, eins mikið og þau hafa lagt pólitískt undir í þessum málum og haft uppi jafnstórar yfirlýsingar. Það er auðvitað krafa okkar í stjórnarandstöðunni að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra verði kallaðir hingað til umræðunnar.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur auðvitað áhuga á því að keyra þetta mál í gegn. En umræðurnar í dag sem hafa svo sem ekki verið langar hafa borið þess merki að hæstv. sjávarútvegsráðherra gengur býsna vanbúinn til þessarar umræðu og við hv. þingmenn höfum ekki fengið þau svör sem við óskum (Forseti hringir.) eftir frá honum varðandi efni frumvarpsins. Honum veitir því ekki af liðsauka þannig að umræðan gæti orðið efnisleg og eitthvert vit í henni, hæstv. forseti.