139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að ætla að gera hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra viðvart um að nærveru þeirra sé óskað.

En það er annað mál varðandi störf þingsins á þessu kvöldi sem ég vildi gera athugasemd við í fullri vinsemd. Í kvöldmatarhléi var boðað til funda, bæði í hv. allsherjarnefnd og hv. viðskiptanefnd. Það vill þannig til að ég á sæti í þeim báðum og hvorki ég né aðrir hv. þingmenn eigum möguleika á því að sækja tvo nefndarfundi á sama tíma. Þess skal sérstaklega getið að forusta viðskiptanefndar baðst afsökunar á þeirri handvömm sem varð við fundarboðun, en ég vildi bara vekja máls á þessu, virðulegi forseti, til að reyna að tryggja það að slík mistök skyldu ekki endurtaka sig. Þó að mikill asi sé og mikið stress á stjórnarmeirihlutanum að keyra ákveðin mál í gegn (Forseti hringir.) er mikilvægt að nefndarfundir geti farið fram með þeim hætti að menn geti sótt fundi í nefndum sínum.